14 maí 2008

Tógóbrot

Ég gaf þvottakonunni ekki buxurnar, ég gaf henni bara nammi. Þakka góðu ráðin, ég kannski sendi henni bara mynd af buxunum ;) Viss um að Haukur hafi rúllað upp prófinu.

Á heildina litið var Afríkudvölin ánægjuleg. Að fara til Afríku að vinna á heimili fyrir munaðarlaus börn... Það hljómar eins og maður sé að fara inn í mjög erfiðar aðstæður þar sem sé mikil fátækt og sorgmædd börn. Það var ekkert þannig. Spes heimilið er gott og fallegt heimili, þar er nóg af öllu og börnin eru hamingjusöm.

Þetta var nú samt ekkert æðislegt út í gegn. Þó ég hafi búið við lúxus aðstæður á Tógómælikvarða þá var það enginn lúxus. Ég var með stórt og fínt herbergi með viftu í loftinu og ég var með eigið baðherbergi. Það var netkaffi í 5. mínútna fjarlægð frá heimilinu, ég fékk nóg að borða og allir voru góðir og almennilegir við mig. Þetta er samt Afríka. Það var mjög oft rafmagnslaust og þá virkaði fína viftan ekkert og ég lá andvaka í lengri tíma. Ekki gat ég stytt mér stundir við að lesa – í rafmagnsleysinu, þá komst ég ekki í tölvu og það var heldur ekkert sérlega sniðugt fyrir mig að fara í einhvern göngutúr um hverfið í myrkrinu. Ég var komin með meira en nóg af hrísgrjónum og spagettíi, og stundum var ég orðin þreytt á því að vera hvít.

Ég var ekki búin að vera í Tógó í 3 vikur þegar ég komst að því að moskítóflugubitin sem ég var með voru ekki moskítóflugbit. Með töng og sótthreinsandi náði ég að kreista út lirfur, já, úr höndum, maga og fótum kreisti ég út 6 stykki liFandi, sprikkLandi lirfur.

Börnin, yndislegu yndislegu börnin mín, áttu það líka til að vera óþekk. Stundum var ég orðin þreytt á að búa inni á heimilinu, ég fékk alltaf samviskubit ef ég fór eitthvað... sem var auðvitað vitleysa í mér, hver vinnur allan daginn, alla daga í 3 mánuði! Mér hefði fundist ég frjálsari hefði ég búið í eigin íbúð. Þá hefði ég getað farið meira út á kvöldin, það hefði verið gott að breyta af og til um umhverfi því það er erfitt að búa í vinnunni. Þá hefði ég líka örugglega haft meiri orku og verið skemmtilegri fyrir börnin. Það hafði samt vissulega sína kosti að búa inni á heimilinu og ég kynntist börnunum betur fyrir vikið. Ohh, börnin... Af hverju tók ég þau ekki bara öll með mér heim.

En ég fíla Tógó. Suma daga ætlaði ég ekkert að koma heim aftur. Ég fíla hvað menning Afríku er hrein. Í Tógó finnur maður ekki Mac Donalds þó maður leiti og þar heyrir maður ekki Britney Spears í útvarpinu. Fólk gengur í mjög fallegum afrískum fötum, hlustar á tónlist frá löndunum í kring, það borðar fufu og akoumé (jújú, og hrísgrjón!).

Sunnudagar með Kevin voru með skemmtilegustu dögunum mínum. Ég lét hann alltaf ráða för, mig langaði að eyða sunnudeginum eins og Tógóbúi. Almennt byrjuðum við á að taka leigubíl – taxicar. Í Tógó deilir maður leigubíl með öðrum. Oftar en ekki sitja tveir frammí með bílstjóranum (einn s.s. ofan á handbremsunni) og fjórir aftur í. Ég var nú hálf flissandi þegar við sátum þarna í aftursætinu, bæði vel hávaxin með veel svera gamla konu öðrum megin við okkur og þrekinn, fullorðinn karlmann hinum megin. Það var ekkert sérlega þægilegt, en ég elskaði það... Ég var að upplifa Tógó.

Þegar stigið var út úr leigubílnum fundum við okkur (ok, Kevin fann fyrir okkur) tvö, leiguhjól? – taximotor. Í Tógó keyra nefnilega allir um á skellinöðrum. Ef maður stoppar á rauðu ljósi eru kannski 3 bílar á móti 20 skellinöðrum. Það er ekki óalgeng sjón að sjá fjögurra manna fjölskyldu á einu hjóli. Við tókum okkur tvo motortaxa og héldum svo af stað. Þáááááá elskaði ég Tógó!

AAAaaAAAhhhhHHhh! Að sitja aftan á skellinöðru, í heitum vindi... Það er alls staðar svo mikið að sjá, það er svo mikið líf alls staðar. Það er svo mikið af fólki, alls konar fólki, í svo skrautlegum fötum. Maður heyrir afríska tónlist hljóma héðan og þaðan. Ég var orðin nokkuð stolt í enda dvalarinnar, fannst ég voða töff að þurfa ekki að halda mér í, jafnvel á vegum sem voru þónokkuð holóttir. Held Kevin hafi meira að segja verið hættur að hlæja að mér.

Við fórum á ströndina, slöppuðum af, horfðum á sjónvarp, fórum í mat til frænku hans, út að dansa og heimsóttum vini hans. Það var frábært. Það var líka ekkert betra en að koma heim eftir þannig dag þegar tugir brosandi barna tóku á móti mér. Það var best.


Þróunaraðstoð

Við Vesturlandabúar þurfum að aðstoða þjóðirnar í suðri, það hefur alltaf verið mín skoðun. Í dag held ég að þær þurfi líka að aðstoða okkur, við ýmislegt... En ok, ég skal bíða með þann pistil, í bili.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá! Ævintýri lífsins.

Nafnlaus sagði...

Ah! yes it is typically the description of the life in Togo. Thank you OLGA :) :)
Kevin.