Benedikt hvatti fólk til að gerast heimsforeldrar á síðunni sinni nú um daginn. Ég – stoltur heimsforeldri tók undir hvatningu hans. Jón Gunnarsson fyrrum bekkjarbróðir minn var hinsvegar ekki á sama máli og sagði að “á meðan hluti peningsins fer til spilltra embættismanna og stríðsherra vona ég að sem fæstir skrái sig sem heimsforeldri.” (haha – ég verð núna í því að vitna í fólk).
Þróunaraðstoð hefur fengið á sig gífurlega gagnrýni í gegnum tíðina, og guð veit að það er ekki að ástæðulausu! Í áfanga sem ég tók í fyrra las ég fjölmargar greinar um misheppnaða þróunaraðstoð og var mikið farin að velta því fyrir mér hvað ég væri að spá í að stefna á starfsferil í þessum geira – ástandið í heiminum væri einfaldlega vonlaust. Vestrænar þjóðir sem þykjast hjálpa gera það alltaf út frá eigin hagsmunum og þeir aðilar sem fara út í þróunaraðstoð af hugsjón stofna einhver hjálparsamtök, skella sér út til Afríku og gera svo einhverja helvítis skandala sem gera bara illt verra... Þó svo ætlunin hafi verið góð. Ég fylltist vonleysi.
Staðreyndin er nú samt sú, að þrátt fyrir skelfileg mistök sem aldrei verða aftur tekin, þá hefur mikið af þróunaraðstoð skilað sér. Ég fagna viðbrögðum Nonna að því leyti að athugasemdir sem hans vekur fólk til umhugsunar – það að verkefni sé auglýst sem þróunarverkefni þýðir ekki að maður eigi að styrkja það – að peningurinn muni leiða til góðs. Ætli maður að styrkja þróunaraðstoð er mjög mikilvægt að skoða samtökin og starfsemi þeirra með gagnrýnum hætti.
Auðvitað er alltaf um að ræða ákveðna “trú” á því að samtökin séu að vinna góð verkefni. Eins og Óskar benti á, á síðu Benna, þá mun ég aldrei geta fylgt 1000 krónunum mínum eftir. Ég verð að trúa og treysta því að upplýsingarnar frá samtökunum séu sannar og réttar... En sum samtök tel ég trúanlegri en önnur.
Ég hef alltaf haft mikla trú á UNICEF. Þetta er aðstoð sem snýr að grunnþáttum eins og menntun og heilbrigðismálum. Ég vissi ekki betur en að peningarnir færu beint í ákveðin verkefni en ekki til ríkisstjórna t.d. þar sem meiri hætta væru á að þeir kæmust í hendur óæskilegra aðila. En ég hef þó alls ekki kynnt mér málin nógu vel og ákvað því að senda fyrirspurn til UNICEF og spurja út í skipulagið hjá þeim. Ég fékk svar í morgun.
Í fyrsta lagi langaði mig að vita hvort peningurinn færi ekki beint í verkefni á vegum samtakanna sjálfra þar sem þeim yrði fylgt eftir. Svarið var:
UNICEF vinnur samkvæmt mjög ströngum stöðlum. Við höfum 60 ára reynslu af hjálparstarfi og erum stærstu barnahjálparsamtök í heimi. UNICEF er með skrifstofur í 157 löndum og svæðum og því fer peningurinn ekki til ríkisstjórna heldur til New York og síðan til landskrifstofanna. Utanumhaldið er strangt og þegar við sem landsnefnd eða íslenska ríkisstjórnin sendir peninga út til þróunarlanda þá fer það fyrst í gegnum New York til að tryggja að öll framlög fari í gegnum rétt ferli og við fáum kvittun og annað slíkt. Þá er fylgst með að fjármunirnir fari beint til UNICEF í þróunarlandi en ekki eitthvert annað. Landskrifstofurnar og við hér á Íslandi (landsnefnd) verðum að skila árangri til UNICEF alþjóðlega og skila inn bókhaldi, fjárhagsáætlun og slíku árlega. Það er mjög vel haldið um þetta og við finnum fyrir því líka. UNICEF er með strangt aðhald innan frá og sendir líka utanaðkomandi endurskoðanda til landskrifstofanna (oft fyrirvaralaust) til að koma í veg fyrir spillingu og fjárdrátt og tryggja að rekstur skrifstofanna sé samkvæmt stöðlum UNICEF og til að athuga hvernig fjármununum er varið í verkefni. Við hér á Íslandi fáum Deloitte til að endurskoða okkar reikninga að kostnaðarlausu. Nýlega var fenginn endurskoðandi frá Sænsku þróunarsamvinnustofnuninni (SIDA) til að fara yfir fjármál UNICEF og hann gaf samtökunum mjög góða einkunn fyrir utanumahald.
Samkvæmt þessu ferli á ég erfitt með að sjá hvar peningurinn ætti að geta komist í hendur óæskilegra aðila.
Að gamni langaði mig líka að forvitnast um yfirbygginguna þar sem samtök hafa oft verið gagnrýnd fyrir að eyða of miklum pening í hana. Svarið var:
UNICEF er alltaf að betrumbæta og minnka skrifstofukostnað. árið 2004 var hann 6% af heildarútgjöldum. árið 2005 var hann 4%. Það er þó þannig að skrifstofukostnaður er ekki peningum sem hent er út um gluggann, eins og þú bendir á. Hann er nauðsynlegur til að tryggja gegnsæi í fjármálum og utanumhald og framvindu verkefna. Ef t.d. ekki er varið fjármagni í að athuga framvindu verkefna, er kannski óvíst að galli finnist á verkefninu og að það skili eins miklum árangri og hægt er (nefni þetta bara sem dæmi). Svo er t.d. manneskjan sem vinnur við það hjá UNICEF að fá afslátt og bestu kjör á lyfjum og öðru slíku, sú manneskja sparar peninga en er vissulega að vinna bakvið skrifborð.
Ég sé ekki betur en að UNICEF sé vel skipulögð stofnun og að peningarnir skili sér til þeirra sem þeir eru ætlaðir. Annars vil ég bara segja í síðasta sinn að mér finnst gífurlega mikilvægt að vera gagnrýninn, þróunaraðstoð er mjög vandmeðfarin og þá ekki síst þar sem ekkert svæði í heiminum er eins. Ég tel samt mikilvægt að loka ekki augunum fyrir því að margir eru að gera góða hluti. Ég segi að við pössum upp á það hvert peningarnir okkar fara, en að við reynum alltaf að finna leið ... Góða leið til að leggja okkar að mörkum. Að sitja heima og halda því fram að allt sé vonlaust og engum treystandi tel ég ekki vera lausn.
Ég var heppin að fæðast á Íslandi og ég fyllist viðbjóði við tilhugsunina hvað maður getur oft verið vanþákklátur og sjálfselskur. Heimurinn er ósanngjarn og ég vil leggja mitt af mörkum til að breyta því. Ég vona að þessi pínulitli mánaðarlegi þúsund kall sé bara upphafið af því sem ég mun leggja af mörkum. Ég vil vera sátt þegar ég ligg á dánarbeðinu.
Úff hvað ég er dramatísk ... En ég meina hvert orð.
3 ummæli:
Hverju orði sannara Olga! Ég sit hér á rassgatinu heima og pikka inn á fartölvuna mína, sem mér finnst vera algjört drasl af því batteríið endist bara í klukkutíma, hugsið ykkur sjálfselskuna! Á meðan eru milljónir barna um allan heim að svelta og fá ekki þá heilsugæslu sem þau þurfa. Ég hef alltaf verið frekar skeptískur á hjálparsamtök, en ef það eru einhver hjálparsamtök sem hægt er að treysta að þá er það einmitt UNICEF. Manni munar ekkert um að leggja þúsund kall á mánuði í púkk til að hjálpa þeim sem minna mega sín. Ímyndið ykkur bara ef þið væruð í þeirra sporum! Til að breyta ástandinu í heiminum þarf sameiginlegt átak margra. Þessvegna legg ég þúsund kall á mánuði til UNICEF, bæði til að friða samviskuna og í þeirri von að þúsundkallinn minn gæti mögulega bjargað barni frá því að deyja úr Malaríu. Ef ekki þá hef ég allavega lagt mitt af mörkum með góðum vilja...
Orð í tíma töluð mín kæra vinkona..!!!
Já ég segi bara sömuleiðis: Hverju orði sannara Einar!!
:)
Skrifa ummæli